Beint úr kassanum
Hver kannast ekki við að hafa sagt að eitthvað hafi komið „beint úr kassanum” eða sé „eins og nýtt úr kassanum” þegar um nýjan hlut er að ræða eða hlut sem lítur út sem nýr? En hvernig er orðalagið tilkomið?
Undirritaður hafði einhverja hugmynd um það, var að velta vöngum yfir því en var ekki með söguna á hreinu svo spurningunni var beint til Jóhannesar Reykdal ritstjóra Bílabloggsins þegar við hittumst á dögunum.
Skýringar Jóhannesar fylgja hér.
„Skýringin er einföld: Í árdaga bílaaldar voru bílar aðallega smíðaðir inni í miðjum Bandaríkjunum, langt frá sjó og því þurfti að flytja bílana um langan veg, jafnvel til Íslands eða Ástralíu. Þegar slíkir „langflutningar“ voru á dagskrá var bílunum komið fyrir í trékassa, hjólin skrúfuð af og ýmislegt annað sem var heppilegt að fjarlægja og kassanum síðan lokað.
Innan Bandaríkjanna var þetta einfaldara, bílunum var einfaldlega ekið á járnbrautarvagna og þannig fluttir á áfangastaðinn.
Svipað var uppi á teningnum þegar bílaframleiðslan fór á flug í Evrópu. Í Englandi voru bílaverksmiðjurnar inni í miðju landi og þegar kom að útflutningi þá var nýi bíllinn settur í trékassa og fluttur jafnvel um langa leið. Til dæmis inn í miðja Afríku eða Ástralíu eða Nýja-Sjálands.
Þaðan er orðalagið „nýr bíll úr kassanum“ komið!
Bílakassarnir sem urðu að einbýlishúsum eða sumarbústöðum
Þegar bílainnflutningur fór á fulla ferð hér á landi eftir seinni heimsstyrjöldina komu bílar ýmist í kössum eða voru einfaldlega fluttir á dekki fraktskipanna, og komu því stundum vel sjóbaðaðir til landsins og stundum skemmdir vegna sjógangs.
Ísland gerði á þessum árum viðskiptasamninga bæði við Rússland og Tékkóslóvakíu og hluti viðskiptanna fólst í innflutningi á bílum.
Þessa bíla þurfti að flytja um langan veg og þeir voru einfaldlega settir í öfluga trékassa, fyrst til flutnings með járnbrautum og síðan með skipi hingað til lands.
Timbrið í þessum kössum, sérstaklega þeim rússnesku þótti afburðagóður smíðaviður og var setið um efnið um leið og nýi bíllinn „kom úr kassanum“.
Á þessum árum var mikil uppbygging á íbúðarhúsnæði og dæmi voru um að jafnvel hús í Smáíbúðahverfinu hafi verið smíðuð að hluta úr þessum efnivið.
En „rússakassarnir“ voru sérlega vinsælir til smíði á sumarbústöðum og nokkrir bústaðanna við austanvert Þingvallavatnið voru smíðaðir úr svona kössum.
En svo kom „gámavæðingin“ og hætt var að flytja nýja bíla óvarða í lest eða dekki flutningaskipa og þeir settir í gáma í staðinn. Hér á landi hentaði þetta vel því mikið magn af frystigámum fóru frá landinu fullir af frosnum fiski en voru síðan notaðir fyrir nýja bíla á bakaleiðinni til landsins.
En hugtakið um bílana „…eins og nýr úr kassanum“! lifir áfram.”
Vel útskýrt og þá er þetta komið á hreint. Þetta orðalag er tilkomið vegna innflutnings á bílum og timbrið í kössunum var notað m.a. til að smíða hús og sumarbústaði.
En eitt að lokum: varist að tala um að eitthvað sé glænýtt nema það sé sjávarfang. Orðið „glænýr” þýðir bókstaflega nýdreginn (fiskur) úr sjó og þannig viljum við ekki hafa bílana okkar! Samanber bílana sem voru fluttir inn á dekki skipa og voru ekki í kössum eins of Jóhannes nefndi hér að ofan.
Jón Helgi Þórisson og Jóhannes Reykdal.
Umræður um þessa grein