Alvöru vetrarpróf rafbíla í Noregi
Það var Tesla Model 3 sem kom sá og sigraði í umfangsmikilli „vetrarprófun“ rafbíla í Noregi á dögunum. Að lokum endaði Tesla með hæsta kílómetrafjöldann: 521 kílómetra. Mercedes-Benz EQS varð í öðru sæti.
Athyglisvert var að enginn af bílunum 31 í vetrarprófinu í ár var nálægt uppgefnum WLTP tölum.
Það var norski bílavefurinn Motor og NAF, sem eru samtök bifreiðaeigenda í Noregi (systursamtök FÍB) sem stóðu fyrir þessu prófi en alls voru 31 rafbíll í drægniprófinu. Aðstæður voru breytilegar en það var ekki mjög kalt.
Engu að síður voru allir bílar með yfir 10 prósent frávik frá þeirri drægni sem var gefin upp fyrir fram.
Tesla Model 3 Long Range stoppaði með 521 km á kílómetramælinum. Mercedes-Benz EQS stoppaði á 513 km, og BMW iX xDrive50 fór líka 500 km.
Samkvæmt frétt á vef Motor var það hinn kínverski BYD Tang sem skilaði hlutfallslega best, með aðeins 11 prósenta frávik frá lofuðum 400 kílómetrum (hann fór 356 km).
Hin nýja Tesla Model Y var líka góð – fór 451 km og var með 11,05 prósenta frávik. Og það skal áréttað að síðustu 100 kílómetrarnir voru með með meiri hækkun og lægri hita, nokkuð sem BYD Tang átti erfitt með á lokasprettinum.
Prófunarleiðin var frá Osló, um Lygnasæter, Gjøvik, Ringebu, Dombås, Hjerkinn, Folldal og síðan suður til Venabygdsfjellet til Ringebu aftur.
Þeir bílar sem lengst fóru stöðvuðust rétt norðan við Kvam.
Bílarnir byrjuðu með fullhlaðna rafhlöðu, án forhitunar, frá bílskúr á Vulkan í Osló þar sem hiti yfir nótt er á bilinu 10 til 15 gráður.
En nánar má lesa um þetta „þolpróf“ á vef Motor og eins á vef FÍB og fróðlegt að skoða upplýsingarnar sem þar er að finna.
(frétt á vef Motor)
Myndband frá Norðmönnunum:
Umræður um þessa grein