Hér er saga af tveimur bílasölum. Annar algjör skúrkur en hinn saklaus og auðtrúa. Söguna segir bílasali sem réði þessa tvo í vinnu um aldamótin og er þetta alveg glimrandi saga um mannlegan breyskleika annars vegar en einbeittan brotavilja hins vegar!
Bílasali skrifar:
Upp úr aldamótum, þegar bílasalan mín var töluvert stærri en hún er í dag, réði ég tvo menn í vinnu; þá Darren og Dave. Ekta nöfn á bílasala sem selja notaða bíla í „gettóinu“ í Birmingham.
Darren var meira pirrandi, með hrikalega háa og hvella rödd, ljósar strípur í hárinu og með óraunverulegar hugmyndir um eigið ágæti. Einkum þegar kom að því að „heilla dömurnar“.
Dave var svona týpískur verkamanna „Börmari“ (Brummie er slangur yfir íbúa í Birmingham – undirritaðri fannst Börmari skemmtilegra). Indælasti náungi alveg hreint en alls ekki beittasti hnífurinn í skúffunni. Ekki bætti það stöðuna að hann talaði í ótrúlega leiðinlegri og þreytandi tónhæð og samskiptahæfileikarnir voru ákaflega takmarkaðir.
Dave var svona náungi sem vissi upp á hár hvar besta skyndibitann væri að finna í hverju einasta úthverfi í Birmingham, gat lýst í smáatriðum hvernig hann smakkaðist og hvað væri svona gott við hvern einn og einasta stað. Hann var líka með það á hreinu hvaða pöbbar væru með fullkomlega rétt hitastig á kranabjórnum. En þegar kom að því að kveikja samræður, þá var hann alls ekki sá sem vakti máls á einu eða neinu.
Flottheit og keppnisskap
Þrátt fyrir hversu ólíkir D&D voru þá bjuggu þeir báðir yfir miklu keppnisskapi. Þeir voru stöðugt í keppni. Keppni um hvor þeirra landaði betri díl, fékk hærri söluþóknun og þar fram eftir götunum. Oftast hafði Darren betur og hann naut þess að græða. Hann skartaði úri af dýrustu gerð og klæddist merkjavöru.
Síðar komst ég að því hvernig stóð á þessum „flottheitum“ hjá karlinum. Hann var enginn engill. Þvert á móti var hann algjör skrattakollur.
Sannleikurinn um velgengni hans í starfi kom í ljós nokkru síðar þegar Darren kom að máli við bifvélavirkjann okkar, Stebba skítuga eins og hann var kallaður. Þetta var þegar hann var farinn að reka sína eigin bílasölu og honum hafði meira að segja tekist að nappa Dave af mér…
En já, það sem hann bað Stebba skítuga um á sínum tíma, kom eiginlega upp um hann, bölvaðan refinn. Darren bað hann um að skipta á dekkjum og felgum sem voru í toppstandi undir BMW á bílasölunni sem hann rak og setja undir bílinn hans. Og dekk og felgur á bílnum færu þá undir BMW-inn á sölunni.
Darren sagði að hann vildi að Pirelli dekkin færu undir bílinn á sölunni. Hann átti jú bílasöluna og gat auðvitað gert það sem honum sýndist. Auk þess, eins og hann útskýrði fyrir Dave, var hann búinn að „læna upp“ sölu á BMW-inum og þetta þyrfti að gerast í snatri. Þetta var mynstur sem endurtók sig með óskiljanlegum hætti býsna oft, ár eftir ár.
Dyntótti Darren
Darren seldi gjarnan bíla nákvæmlega eins og þá sem hann var á sjálfur en lét iðulega skipta á dekkjum eins og í dæminu sem rakið var hér að ofan. Og jú, sem stjórinn á staðnum gat hann skipað öllum fyrir án þess að þurfa að útskýra eitt eða neitt. Starfsfólkið afgreiddi svona lagað sem dynti en Darren var þekktur fyrir að vera dyntóttur maður. Eða hann lét alla vega líta út fyrir að svo væri.
Nema hvað! Eftir að hafa sjálfur starfað við bílasölu hátt í hálfa öld á svæðinu þá kippti maður sér nú ekkert upp við einn og einn dyntóttan karl.
Síðan kom að næsta atviki sem feykti öllu um koll.
Í það skiptið var einnig um BMW að ræða. Fimmu. Eins og í fyrri skiptin fékk hann Stebba skítuga til að víxla dekkjum og felgum áður en nýr eigandi tók við lyklunum.
Dave vissi ekki að „Börmarinn“ hefði tekið bílinn frá og „lænað“ einhverju upp. Núnú, til þess að komast í helgarfríið og ljúka vikunni með stæl, seldi hann viðskiptavini bílinn þennan föstudagseftirmiðdag.
Darren varð nánast blár í framan af bræði þegar hann heyrði af sölunni. Enginn hafði hugmynd um af hverju maðurinn hreinlega trompaðist.
Það var ekki fyrr en eftir helgi, á mánudeginum, sem starfsfólkið áttaði sig. Þegar menn mættu til vinnu sáust blá blikkandi ljósin úr góðri fjarlægð. Og jú, þarna var Darren; lögreglumenn leiddu hann út í lögreglubíl og áfangastaðurinn var sjálft tugthúsið.
Ferlega erfiður akstur
Þetta var fyrir átta árum, og við höfum ekki séð Darren síðan. Enda hefur hann snætt kvöldverð við massíf borð úr stáli hennar hátignar. Á bak við lás og slá.
Í ljós kom að frúin, sem keypti silfruðu fimmuna þennan eftirminnilega föstudag, ók á „nýja“ bílnum til móður sinnar í Cheshire þar sem hún ætlaði að dvelja yfir helgina. Á leiðinni í sveitina kom í ljós að bíllinn hegðaði sér stórundarlega á hraðbrautinni. Það var eitthvað mikið að hjólabúnaðnum og „ballans“ var víðs fjarri.
Nú, í stað þess að fara aftur á bílasöluna til að fá úr þessu skorið, fór hún strax í bítið á mánudeginum á næsta dekkjaverkstæði til að láta ballansera. Það gekk eitthvað illa. Starfsmaður á verkstæðinu ákvað að taka eitt dekkið af felgunni til að líta nánar á þetta og þá dreifðist hvítt duft út um allt.
Ítarleg rannsókn leiddi í ljós að allt var þetta stappfullt af fíkniefnum og var götuvirði efnanna um 800.000 pund.
Það er nú lítið mál að kaupa nokkur Rolexúr og alklæðnað af merkjavöru fyrir slíka summu.
Við réttarhöldin kom eitt og annað í ljós, m.a. það að Darren var í samkrulli við aðalspaðann í ljótukarlafélagi Birmingham. Og jú, það var engin tilviljun að Darren var alltaf á eins bílum og hann var að selja.
Darren ók niður til Gíbraltar á einum þessara bíla, þar voru dekkin troðfyllt af kólumbísku „gleðiefni“ og svo brunaði hann uppeftir, yfir hin ýmsu landamæri á bíl sem var óaðfinnanlegur – svo framarlega sem engum datt í hug að fikta í dekkjunum.
Maður getur alveg ímyndað sér að ferðalagið hafi ekki verið neitt sérstaklega slakandi, og ekki hjálpaði til að dekkin voru álíka ljúf og kassar undir bílnum.
Svo sendi höfuðpaurinn einn sinna skósveina til Darrens á bílasöluna til að kaupa hvern þann bíl sem Darren hafði skrönglast og skoppað á gegnum Evrópu í það og það skiptið.
Þetta var nokkuð snjallt ráðabrugg, enda hafði þetta gengið nokkuð smurt fyrir sig í fjölda ára án þess að nokkurn grunaði eitt eða neitt. Kaldhæðnin er að sjálfsögðu sú að öll þessi ár hafði Dave verið í skugganum af Darren, sem hirti öll sölulaunin. Darren sem við hefðum í rauninni átt að gefa nafnið Mjallhvít.
Nema hvað, að Dave, sem aldrei hafði verið óheiðarlegur í sínu starfi, tók við rekstri bílasölunnar og hefur nú bara gert það nokkuð gott síðustu átta árin eða svo. Og það meira að segja án þess að drepa einn eða neinn úr leiðindum!
Greinin er unnin upp úr umfjöllun sem birt var á vef Car Dealer Magazine um síðustu áramót. Upprunalega birtist sagan í 165. tölublaði tímaritsins Car Dealer en það er aðgengilegt hér.
Fleiri mannlegar bílasögur:
Fann falin skilaboð í notuðum bíl
Martraðarkennd upplifun bílasala
Gleymdi hvar hann lagði bílnum: Svo liðu 20 ár
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein