Það er mörgum eigendum sportbíla af gerðinni Ford Mustang hrein kvöl og pína að sjá Mustang-merkið á Ford Mustang Mach-E. „[Bíllinn] hefði aldrei átt að fá að nota nafnið Mustang,“ segir í grein bílablaðamanns.
Í síðustu viku greindi Ford frá því í fréttatilkynningu að um 70% kaupenda Ford Mustang Mach-E hefðu ekki átt Ford áður.
Þetta kemur kannski ekki mjög á óvart því nokkuð ljóst þykir mörgum að ekki eru það einlægir aðdáendur Ford Mustang, sem kaupa Mach-E.
Fullyrt er í grein á bílavefnum Motorious að það eitt að sjá folann, þ.e. Mustang merkið sjálft, á Mach-E sé Mustang-aðdáendum þyrnir í augum. Eða eins og segir í greininni: „Þeir þola ekki að sjá þetta merki á fjögurra dyra, rafknúnum crossover.“
Nú veit undirrituð ekki hvernig þessu er háttað hér á landi en ekki kæmi það verulega á óvart ef það sama væri uppi á teningnum og í Bandaríkjunum.
Ætti ekki að bera sama nafn
Þetta er dálítið skemmtileg grein sem ég vitna í. Hana skrifaði Steven Symes og hann er greinilega ekki hræddur við að segja sína skoðun og mun örugglega hljóta fyrir það bæði lof og last. Þannig er það alltaf.
Einn vill skjóta sendiboðann, annar vill troða honum í búr og enn aðrir gefa honum gjallarhorn.
„Það er gjörólíkur hópur fólks sem heillast af Mach-E, sem er einmitt ein ástæða þess að þetta [bíllinn] hefði aldrei átt að fá að nota nafnið Mustang,“ skrifar Symes.
„Vörumerkið Mustang er sennilega það þekktasta af öllum undirtegundum sem Ford hefur nokkurn tíma framleitt. Það er með öllu óskiljanlegt að Ford skuli vilja útvatna því sem við höfum til þessa þekkt sem Mustang með því að klína merkinu á eitthvað sem á fátt skylt við hinn sanna Mustang,“ skrifar hinn skeleggi bílablaðamaður.
Er öllu fórnað á altari Mammóns?
Það er vonandi ekki svo að annað Edsel-ævintýri sé í uppsiglingu, enda ekki alveg hægt að bera það saman en þó má líta á fjárhagshlið málsins því allt gengur þetta jú út á peninga í grunninn.
Á fyrsta ársfjórðungi tapaði Ford 3.1 milljarði dollara en fjárhagsvandann má, rétt eins og hjá öðrum framleiðendum, rekja til skorts á hálfleiðurum og annarra leiðinda. Ford tapaði líka heilmiklu við að kaupa hlut í Rivian en lesa má nánar um það með því að smella hér.
Það er engum blöðum um það að fletta að Ford þarf á því að halda að kæta Wall Street eða hvað svo sem við viljum kalla það. Í það minnsta eru rafbílar líklegir til að færa hagnað í peningageymana og þá er stóra spurningin hvort það hafi ekki verið helst til djarft að taka hið þekkta, dýrkaða og dáða merki og fórna því á altari Mammóns?
Því með því gæti framleiðandinn „líka fórnað dyggum aðdáendum Mustang,“ eins og blaðamaður Motorious komst að orði. Ætla ég að leyfa mér að nota lokaorðin úr hans ljómandi góðu grein og gera þau að lokaorð þessarar greinar líka:
„Einhvern veginn virðast stjórnendur fyrirtækisins hreinlega hafa gleymt hversu litlu munaði að fáránlegar og heimskulegar ákvarðanir, gerðu út af við vörumerkið Mustang fyrir um þremur áratugum síðan.“
Þessu tengt:
8. nóvember ´56: Hrapalleg mistök fá nafn
Frægasta „flopp“ bílaiðnaðarins?
Mustang uppi á Empire State
Stiklað á stóru eftir færibandi Ford
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein