3.947 hestafla ofurtrukkur
Nýlega [ath. grein frá 2019] seldist á uppboði amerískur trukkur. Það væri ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að allar tölur í kringum þennan einstaka trukk eru ótrúlegar.
Sá sem smíðaði bílinn heitir Mike Harrah; amerískur ríkisborgari sem hefur starfað sem áhættuleikari í bíómyndum, áhættuflugmaður og kappakstursbátsmaður. Síðastliðin sjö ár hins vegar hefur hann smíðað þennan trukk sem ber nafnið „Þór“ og er það væntanlega eftir þrumuguðinum sem við öll könnumst við.
Þessi „Þór“ hóf þó sitt líf sem Peterbuilt 359 Ultra Custom TT Crew Cab árgerð 1984.
„Þór“ er útbúinn tveim 14 lítra V12 dísel vélum, með 12 forþjöppur og nítró kerfi. Bílinn er 13,4 metrar á lengd og vegur um 14,5 tonn! Og hann er LÖGLEGUR á götunum í Ameríku.
Þrátt fyrir alla þyngdina sem vélarnar bæta á trukkinn nær hann samt sem áður 210 km/klst og er útbúinn fjórum fallhlífum til að aðstoða við að stoppa. Hvernig aksturseiginleikarnir eru er erfitt að ímynda sér en ef ég ætti að giska þá myndi ég halda að þeim svipi til skemmtiferðaskips eða blokkar.
Aftan á „Þór“ er síðan aflvél úr Hawker 600. Fyrir ykkur sem ekki vitið hvað Hawker 600 er þá er það einkaþota og er þetta aflvél úr henni.
Að innan er allt klætt með leðri og sverð er notað sem gírstöng. Þar má líka finna 12 mæla fyrir hverja forþjöppu. Utan á er bíllinn svo skreyttur þessu risastóra grilli sem er innblásið af 1933 árgerð af Ford vörubíl. Um allan bíl má svo finna eldtungur úr áli, sem eflaust eiga að líkja eftir því sem kemur út um púströrið. Aftan á húsi ökumannsins er síðan frábær veggmynd af goðinu sjálfu sem bíllinn er helgaður.
Það ótrúlega er samt að „Þór“ er fullbúinn trukkur með stól og öll þau tengi sem þarf til að draga vagna.
Mike Harrah er hins vegar búinn að selja „Þór“ og fékk hann 13,2 milljónir dollara fyrir eða um 1,6 milljarð íslenskra króna fyrir bílinn. Mike getur því farið að leita að næsta verkefni til að taka sér fyrir hendur, nú eða bara slappað af í sólinni í Flórída. Eða hafið smíði á öðrum „Þór“ fyrir flutningsfyrirtæki á Íslandi.
Unnið úr frétt frá Top Gear UK.
Umræður um þessa grein