225 ástæður fyrir því að fólk kaupir rafbíla
Það eru margar ástæður fyrir því að fólk kaupir rafbíla. Hér er fjallað um nokkrar þeirra.
Fyrirsögnin hér að ofan, sem er sú sama og birtist á vef CleanTechnica, vakti áhuga blaðamanns sem ákvað að skoða greinina betur. Í greininni fjallar Steve Hanley um rafbíla og fólkið sem kaupir þá. Gefum honum orðið:
„Nýlega tókum við konan mín þátt í Earth Day viðburði. Við lögðum Tesla Model Y bílnum okkar á viðburðarsvæðinu og ræddum við fólk um rafbíla. Það kom með margar spurningar, flestar um rafhlöður.
Hversu lengi endast rafhlöðurnar? Hvað ef það kviknar í þeim? Hversu dýrt er að skipta þeim út?
Aðrar vinsælar spurningar voru um drægni og hleðslu. Þetta var ekki alveg eins skemmtilegt og að verja deginum á ströndinni með góða bók, en þetta var okkar leið til að leggja okkar lóð á vogarskálarnar í rafbílabyltingunni.
Í dag, þegar ég var að leita að efni til að skrifa um fyrir CleanTechnica, rakst ég á færslu á reddit rafbílaspjallborðinu með einföldum titli: „Af skiptirðu yfir í rafmagn?“ (Why Have You Gone Electric?).
Ég ætlaði að skauta framhjá þessu, en þá tók ég eftir að 225 svör voru undir færslunni. Þannig ég las svörin til að sjá hvað allt þetta fólk hafði að segja.
Í staðinn fyrir fólkið sem ég ræddi við í síðustu viku sem átti enn eftir að stíga skrefið í rafbíl, var þetta fólk sem ók þegar á rafmagni og skrifaði um áhrifamestu þættina að baki ákvörðuninni.
Að því gefnu að flestir lesendur hafi ekki tíma til að vaða í gegnum 225 athugasemdir ákvað ég að vinna verkið fyrir lesendur og draga fram nokkrar af þeim bestu. Við sem keyrum rafbíla erum erindrekar nýrrar tækni sem margir vinir okkar og nágrannar telja framúrstefnu. Við erum eins og forfeður okkar sem reyndu að útskýra fyrir nágrönnum sínum hvers vegna þeir skiptu úr hestum yfir í bíla.
Fyrsta athugasemdin í þræðinum var ein sú besta og gaf tóninn fyrir það sem á eftir kom:
- Kostnaður (TCO rafbíls er mun ódýrari en sambærilegur bíll með brunavél)
- Þægindi (ég fékk nóg af því að panta tíma á verkstæði, þurfa að fara á bensínstöðvar, hugsa um rekstrarvörur eins og olíu, síur og fleira…)
- Umhverfissjónarmið (við þurfum að hætta notkun jarðefnaeldsneytis)
- Almenn verkfræði (mér finnst ekkert vit í því að beita aðferð sem notar aðeins 25% eða minna af orkunni sem til er í þeim tilgangi)
Þetta eru fjórar nokkuð góðar ástæður til að skipta, sérstaklega sú síðasta. Á meðan heimurinn ofhitnar hvernig réttlætum við olíuvinnslu, það að flytja olíuna langar leiðir til hreinsunarstöðva, flytja hana til bensínstöðva og sóa svo þremur fjórðu hluta hennar?
Það eru rök sem ég kaupi og þegar maður útskýrir þetta fyrir öðrum má oft sjá ljósglætu kvikna í augum fólks. Fyrsta svarið við fyrstu athugasemdinni staðfesti bara skilaboðin.
„Já, ég er sammála, það er fyndið að hugsa til þess að undanfarin hundrað ár höfum við reitt okkur á svona flókna vél, sem er átakanlega óhagkvæm með marga bilanapunkta, fyrir persónulega flutninga og nú erum við með einfalda (vélræna) vél sem er mjög skilvirk.“
Hér eru nokkrar fleiri athugasemdir:
„Að gerast grænni er gott, en þetta eru bara hreint út sagt frábær farartæki á nánast allan hátt. Það kostar mig minni peninga í rekstri. Bíllinn er með betri afköst og aksturinn mýkri.“
„Ég myndi segja að það væri mikilvægt fyrir mig að vera grænn en satt að segja er það líka vegna afkasta bílsins. Mér líkar vel við hljóðlátan en hraðan akstur rafbíla. Þeir verða að vera betri en bílar með brunavél til þess að fólk geti skipt yfir og ég held að þeir séu að ná árangri hvað það varðar.“
„Ég hefði aldrei einu sinni litið á svona dýran bíl ef ég hefði ekki haldið að umhverfisþátturinn væri mikilvægur. En eins og þú segir, þegar ég keyrði einn þá var hann líka bara svo miklu betri en nokkur annar bíll sem ég hafði átt. Ég vissi að þetta var leiðin.“
Sumar athugasemdir snéru að hærri kostnaði við rafbíla en hefðbundna bíla. Hér eru tvær:
„Meginástæður mínar tengdust umhverfisáhyggjum. Ég á ung börn og fann mig knúinn til að gera eitthvað í von um að það myndi gagnast þeim og börnum þeirra einhvern tímann. Ég veit að það að skipta yfir í rafmagn mun eitt og sér ekki bæta heiminn, en ég er að leggja mitt af mörkum. Ég vona að aðrir reyni að minnsta kosti að berjast gegn loftslagsbreytingum og umhverfisáhyggjum. En rafbílar þurfa að vera aðeins ódýrari í innkaupum svo allir geti tekið þátt.“
„Einhvern veginn kom útblásturinn frá Subaru Foresternum okkar alltaf aftur þegar við komum inn í bílinn á meðan hann var í gangi (nauðsynlegt á sumrin í Texas), svo það var heilmikið hól þegar dóttir mín hljóp inn í skólann og sagði við fyrstu manneskjuna sem hún sá: „Pabbi minn fékk sér rafmagnsbíl! Hann notar ekki bensín, hann fer mjög hratt og það er ekki lykt!“ Ég hef líka fylgst með kostnaðinum og hingað til erum við að spara að meðaltali 100 dollara á mánuði í eldsneyti – sérstaklega undanfarið. Þannig að það hjálpar til við að draga úr aukakostnaði. Ég er sammála því að rafbílar þurfa að lækka í verði áður en hægt er að nota þá almennt, en af því sem ég hef lesið, mun endurvinnsla á gömlum rafhlöðupökkum ekki aðeins bæta úr því, það mun einnig draga verulega úr fyrstu umhverfisáhrifum þess að smíða nýjan rafbíl.“
Hér er önnur góð ástæða til að keyra rafbíla:
„Ein ástæða sem mörgum dettur ekki í hug? Þjóðaröryggi. Ekki kaupa olíu af harðstjóra og einræðisherrum. Sem sagt, ég keypti Chevy Volt kynslóð 2 fyrir nokkrum árum. Ég varð pirruð á olíuskiptum, takmarkaða drægni á rafhlöðu, og var stöðugt að reyna að lengja drægið sem ég keyri í rafmagni. Svo það virkaði fyrir mig að flytja mig yfir á Bolt.”
Og að lokumer þetta:
„Við erum vernduð fyrir grófum þáttum brunavélar í fallegu loftslagsstýrðu innanrými, en það sem kemur út að aftan er bara… Gróft. Bensínstöðvar eru bara… Grófar. Olíuiðnaðurinn er bara… Grófur. Og það er í raun aðeins lítill hluti fólks sem heldur í rómantík bensínvéla þessa dagana.“
„En svo hefurðu líka þá staðreynd að rafbílar eru bara… Betri. Tesla sannaði það fyrst og það hefur verið gaman að horfa á hina hefðbundnu aðdáendur brunavéla vakna hægt og rólega. Ég held í raun og veru að þeir myndu ekki gera það bara til að bjarga umhverfinu, það er vegna þess að einhver kom og bjó til betri og eftirsóknarverðari vöru. Og svo bara allt það sem er pirrandi við að eiga farartæki með brunavél – viðhald, bensínstöðvar, olíuskipti o.s.frv.“
„Og að lokum vildi ég bara taka stökkið. Ég bý í þeim hluta landsins þar sem margir halda að loftslagsbreytingar séu gabb. Þannig að ég held að því fleiri rafbílar á ferðinni hér því betra, vegna þess að því fyrr sem þeir virðast venjulegir, því fyrr munu fleiri skipta yfir í rafmagnið.“
Er „dyggðamerki“ góð ástæða til að keyra rafbíla? Já. Eins er minni útblástur, meiri skilvirkni, betri afköst, hljóðlátari akstur og frelsi frá stöðugu viðhaldi. Þú getur líklega hugsað um aðra sjálfur. Ef þú ert erindreki rafbíla þá er það hið besta mál. Það gerist ekki betra.“
(grein á vef CleanTechnica)
Umræður um þessa grein