5000 bílum, þremur eiginkonum og þremur morðum síðar
Hann hefur ekki setið auðum höndum síðustu þrjátíu árin eða svo. Nei, síður en svo! Anil Chauhan hefur þvert á móti látið hendur standa fram úr ermum og látið greipar sópa, ef svo má að orði komast.
Þannig hefur hann t.d. komið höndum yfir meira en 5000 bíla sem aðrir áttu. En þessi 52 ára maður frá Delhi á Indlandi á að baki 27 ára „farsælan“ afbrotaferil. Þetta er auðvitað kaldhæðni, en það er nú samt svo að Chauhan státar af þeim vafasama titli að vera stórtækasti bílaþjófur Indlands. Eitthvað sem móðir hans hrósar honum sennilega ekki fyrir.
Hann hefur nokkuð reynt fyrir sér í vopnabraski og smygli á nashyrningahornum en best hefur hann þó staðið sig í bílabraskinu. Það er að segja; það hefur gefið best í aðra hönd og fyllt alla vasa og bauka.
Chauhan stal fyrsta bílnum árið 1998 og fann sig bara ágætlega í því að stela bílum. Hann hélt því áfram og stal bílum um Indland þvert og endilangt þar til í lok síðasta mánaðar. Á þessum árum hefur hann einna helst selt þá í norðausturhluta landsins og svo hefur markaðurinn (sá svarti) í Nepal verið nokkuð líflegur.
Ekki stóð maðurinn í þessu einsamall enda er það heljarinnar „vinna“ að stela yfir 5000 ökutækjum og koma þeim í verð. Hann var því eins konar höfuðpaur eða „yfirmaður“ í þessu brasi öllu saman en hve marga „starfsmenn“ hann var með hefur ekki verið gefið upp nákvæmlega, enda fátt gefið upp á þessum vettvangi og ekkert greitt í lífeyrissjóð eða neitt.
Þó er talið að skósveinarnir hafi ekki verið færri en 25 svo altént hefur mátt halda litla árshátíð og jafnvel efna til einhvers konar hópeflis til að þjappa skaranum saman.
Furðuleg fortíð og óráðin framtíð
En nú fer Chauhan ekki í bíltúra um hríð. Ekki nema í huganum. Hann fór í sinn síðasta bíltúr fyrir um þremur vikum og var það í brynvörðum bíl frá hinu opinbera. Beinustu leið í steininn og engar 2000 krónur fékk hann þótt hann kynni að hafa farið yfir byrjunarreitinn.
Kannski er þetta byrjunarreitur á nýju lífsspili en Chauhan hefur þreifað fyrir sér á ýmsum sviðum og ekki hefur hann alla tíð fálmað í myrkri – síður en svo. Hann ók eitt sinn þriggja hjóla vagni, þessum sem við þekkjum sum sem „tuk tuk“ eða eitthvað í þá veru.
Vagninum hafði hann ekki stolið heldur eignast með heiðarlegum hætti og allt í stakasta lagi þar. Það sem kemur manni „spánskt fyrir sjónir“ er að Anil þessi Chauhan var helsti samningamaður ríkisstjórnarinnar í Assam og raunar virðist ekki vera sérlega langt síðan. Í sannleika sagt þá sýnist mér hann hafa verið samningamaður ríkisstjórnarinnar fram að handtökunni eða svo segja ýmsir indverskir fjölmiðlar.
Samningatæknin gekk vel og Chauhan kom sér upp stórgóðu tengslaneti, eins og samningamaður ætti að gera.
Tengslanetið byggði hann upp og notaði líka utan vinnunnar og átti það eflaust þátt í handtöku karls. Ekki það að hann hafði ekki vit á að láta „lítið fyrir sér fara“ og var kannski helst til áberandi; skreyttur gullkeðjum, rándýrum tískufatnaði, átti heilu hallirnar og ók um á tjah, kannski ekki stolnum bílum en glæsivögnum sem hugsanlega voru keyptir fyrir launin.
Reyndar segir sagan að Chauhan hafi verið handtekinn í Delhi, þar sem hann hjólaði í mestu rólegheitum á reiðhjóli, vopnaður skammbyssu. Þá hafði lögreglan reynt að ná honum í rúma þrjá mánuði. Aðrir segja að krimminn hafi verið á mótorhjóli en flestir virðast sammála um að hann hafi verið með skammbyssu. Og á einhverju hjóli.
Konur og börn
Anil Chauhan er ýmist sagður eiga þrjár eiginkonur eða „hafa“ átt þrjár eiginkonur. Börnin munu vera sjö talsins. Hvort sem hann var ektamaður kvennanna allra á sama tíma eður ei má í það minnsta ganga út frá því að hann átti ekki þrjú börn með sjö konum heldur sjö börn með þremur konum. Það er alltaf gott að hafa einn fastan punkt hið minnsta í svona flóknum málum.
Bráður bani bílstjóra
Chauhan virðist hafa haft fremur takmarkaða þolinmæði þegar kom að mönnum sem voru eitthvað að þvælast fyrir. Til dæmis leigubílstjórar sem þráuðust við að láta bíla sína af hendi. Þeir voru nú bara skotnir. Einn tveir og þrír. Þannig að á ferilskrá samningamannsins eru nokkur morð líka.
Þannig fór fyrir stórtækum krimma og ólíklegt að hann nái að semja nokkuð við yfirvöld í þessu máli. Enn á eftir að kveða upp dóm og því ekki ljóst hve lengi hann þarf að dúsa í tukthúsinu.
Aðrir skúrkar:
Toyota Supra safn bófa boðið upp
Stal sögufrægum bíl en skilaði honum
Algjör skúrkur: Sagan af Darren og Dave
14 milljónir fyrir bíl einræðisherrans Ceausescu
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein