„Ný föt, sama röddin,“ mun Björgvin Halldórsson hafa sagt einhverju sinni en það er kannski ekki svo fjarri því sem hér verður fjallað um. Nokkrar gerðir bíla hafa verið eins í grunninn býsna lengi og ýmsir farnir að bíða eftir nýrri kynslóð. Lítum á fimm þeirra sem sárlega þyrfti að skipta út.
Nýr bíll, gamall undirvagn?
Á vefnum Wheels.ca var fyrir fáeinum vikum fjallað um 7 tegundir sem eru orðnar nokkuð þreyttar og langt síðan tími næstu kynslóðar hefði mátt renna upp. Undirritaðri þótti sú samantekt hreint ekki galin og hér eru fimm þeirra sem komu mér mest á óvart og væri gaman að sjá hressilega breytingu á.
Nissan GT-R (R35)
Hann hefur verið eins í grunninn frá 2008/2009 og er náttúrulega algjör snilldarbíll. Reyndar ekki bíll sem við sjáum á íslenskum vegum en hann er svakalega vinsæll víða. Samkvæmt greinarhöfundi Wheels (sem er með þann ljóta blett á ferlinum að hafa rústað svona bíl) er sannarlega ekkert út á bílinn að setja, enda afköstin algjört dúndur.
Ýmsar sérútgáfur hafa komið af bílnum en kannski GT-R verði undir í samkeppninni með sinn 14 ára gamla undirvagn. Ég bara veit ekki.
Lexus RC
Hann hefur farið í fegrunaraðgerð en undirvagninn er frá 2014. Við þekkjum hann ekki sérlega vel hér á landi en fjöllum samt um hann. Andlitslyftingu fékk hann árið 2018 en hefur í raun verið eins frá því hann var kynntur fyrir átta árum.
Að mati náungans sem skrifar greinina sem upphaflega var vísað í hefur RC dálítið orðið útundan hjá framleiðandanum og segir hann að vel mætti gera bílinn að álitlegri kosti með einhverri dramatískri breytingu. Sjálf hef ég ekki skoðun á þessu aðra en þá að hann lítur vel út! Lengra nær það ekki.
Jeep Cherokee
Nýr undirvagn var kynntur síðast árið 2013 og svo kom andlitslyftingin góða árið 2019. Fimmta kynslóðin er sú sem kom 2014 og kallast KL en rétt eins og með hinn ágæta Lexus RC þykir manninum sem ég vísa í Cherokee vera skilinn útundan. Segir hann:
„Aðrar gerðir Jeep standa fyrir sínu. Grand Cherokee hefur aflið. Renegade er á góðu verði og nettur. Wrangler gerir það sem Wrangler á að gera. En Cherokee er hvorki sérstakur né á góðu verði í samanburði við þá sem hann er í beinni samkeppni við.“
Hans orð, ekki mín.
Dodge Challenger
Árið 2008 kom þriðja kynslóð Dodge Challenger. Kraftalegur og flottur. Hann hefur auðvitað tekið útlitsbreytingum (2011 og 2015) og komið í ýmsum sérútgáfum en í grunninn er bíllinn óbreyttur frá árinu 2008. Ef þetta væri krakki þá ætti að ferma hann núna!
En hvað um það! Hann hefur selst vel alla tíð og útgáfurnar eru magnaðar: SRT8, Hellcat, 6.1L HEMI, 6.4L „392“ og svo mætti lengi telja fyrir utan alls konar body-kit og fínerí.
Það er áhugaverð staðreynd að þegar nýr Mustang kemur á markað þá hefur þessi kynslóð af Challenger „lifað“ þrjár kynslóðir Mustang.
Chevrolet Camaro
Alpha undirvagninn hefur gert sitt gagn frá 2016 og verður honum skipt út árið 2024 ef áætlanir standast. Undirvagninum deilir sjötta kynslóð Camaro með Cadillac ATS og er tæpum 100 kílóum léttari en sá sem fimmta kynslóðin var byggð á.
Ég er nú ekki sammála því að Camaro beinlínis „öskri“ á breytingar en hann er kannski ögn á eftir sporturunum á Evrópumarkaði hvað aksturseiginleika varðar. Ef fólk er yfirleitt eitthvað að bera þá saman.
Þessi bíll er auðvitað gríðarlega vinsæll. Frá upphafi hafa tæplega 6 milljónir https://en.wikipedia.org/wiki/Chevrolet_Camaro#Sales Chevy Camaro verið seldar og það er nú ekkert smá!
Hann er í þriðja sæti yfri mest seldu sportbíla allra tíma; Ford Mustang er í því fyrsta með yfir 10 milljónir og næstur er Mercedes SL, samkvæmt vef Hotcars en það þarf ekki að vera heilagur sannleikur.
Ojæja, þetta var nú örlítil samantekt byggð á annarri samantekt og er hún ákaflega bandarísk. Hvað segja lesendur? Er þetta eitthvað sem hægt er að heimfæra yfir á bílana í okkar umhverfi?
Myndir: Wikipedia
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum
Umræður um þessa grein