2023 Honda CR-V verður stærri, öflugri og grænni
Ný hönnun eykur þægindi og yfirsýn ásamt því að Sport-gerðirnar fá tvinnafl
Ef til vill finnst einhverjum stutt síðan kynntar voru breytingar á Honda CR-V en það eru samt liðin heil sex ár síðan. Það er komið að því að kynna til leiks Honda CR-V 2023 og það er nokkuð spennandi þar á ferð!

Hvort sem manni finnst langt eða stutt síðan árið var 2016, þá er eitt sem hefur ekki breyst síðan þá, segja þeir á vef Autoblog: CR-V er einn farsælasti jepplingur á markaðnum og er aðeins á eftir Toyota RAV4 í hreinni sölu. Það ætti því ekki að koma á óvart að Honda gerði meira en að henda nýju lakki á þennan crossover áður en hann verður kynntur í nýjum búningi.
Ýmsar bílavefsíður hafa fjallað um þennan nýja CR-V og á meðal þess sem þar kemur fram er að stíll 2023 CR-V sé að hluta til fenginn að láni frá endurhönnuðum Civic. Þá kemur einnig fram að Honda hafi sótt innblástur til Mazda CX-5 og Volkswagen Tiguan; allt eftir því frá hvaða sjónarhorni er litið.
Afturendinn er hins vegar ótvírætt CR-V; þessi afturljós á Honda sennilega skuldlaust.

Á heildina litið er nýi CR-V næstum 8 cm lengri en fráfarandi gerð. Hjólhaf hans er nú 4 cm lengra og sporvíddin næstum 13 mm breiðari, sem hvort tveggja ætti að stuðla að mýkri akstri. Honda segir breytingar á fjöðrun, undirvagni og stýri gera nýja CR-V ekki aðeins fágaðri heldur skemmtilegri í akstri.
Stefna Honda er enn að nota tvær aflrásir, með tvinnbíl sem valkost með meira afli. EX og EX-L verða knúnir áfram af 1,5 lítra fjögurra strokka túrbóvél Honda, sem mun skila sömu 190 hestöflum og 243 Nm togi og í núverandi gerð. Sport og Sport Touring módelin verða með endurskoðaðri tvinnaflrás sem skilar 204 hestöflum og 335 Nm togi.

Honda segir að farangursrýmið að aftan státi nú af meira en 1019 lítrum með aftursætunum uppi og 2166 lítrar er það með sætin felld niður.

Óháð útfærslu CR-V mun bíllinn vera með Honda Sensing, sem er virki öryggisbúnaður framleiðandans. Blindsvæðavöktun er nú staðalbúnaður og Honda hefur einnig gert umferðarteppuaðstoð, lághraða hemlunarstýringu og umferðarmerkjaskynjun aðgengilega í fyrsta skipti. Honda endurkvarðaði einnig aðlagandi hraðastýringu og akreinaaðstoð.
Samkvæmt Autoblog koma nýju CR-V EX og EX-L í sýningarsali þar vestra í sumar og tvinnbílagerðirnar fyrir árslok 2022.
Umræður um þessa grein