2021 Hyundai i20 N „súpermini“ formlega forsýndur
-keppinautur Ford Fiesta ST heldur til Svíþjóðar til prófunar á köldu veðri með Thierry Neuville meistara í WRC-flokki við stýrið
Hyundai hefur sent frá sér opinberar myndir sem sýna væntanlegan i20 N „súpermini“ við prófanir ásamt WRC keppnisbílnum og frumgerð RM19.
Hinn langþráði keppinautur Ford Fiesta ST hefur áður sést á Nürburgring akstursbrautinni í felulitun, en umbúðirnar eru farnar að minnka nú þegar vetrarprófanir fara í gang í Arjeplog í Svíþjóð og gefur okkur hugmynd um hvernig bíllinn verður aðgreindur frá hinum venjulega bíl sem fékk nýlega andlitslyftingu.
Frumgerðin sem er á myndinni er máluð í gráum lit sem þegar er þekktur í N-deildinni og er á sérsniðnum sportfelgum með lábörðum úr gúmmíi, og með miklu stærri bremsudiska að framan og aftan en á venjulegum i20. I20 N virðist einnig sitja nær jörðu með lægri þyngdarpunkt og bæta kraftmikla aksturseiginleika.
Fram- og afturhluti á prufubílnum eru áfram varin fyrir sýn, sem bendir til þess að sportlega lúkkið fái fleiri sérsniðna útlitsþætti – líklega vindskeið að aftan, vindkljúfur að framan, stækkað loftinntak og stærri útblástur – í takt við stærri i30 N.
Thierry Neuville, ökumaður í WRC, hjá Hyundai, var til staðar í Svíþjóð til að gefa álit sitt á i20 N: „Mjög áhugaverður bíll. Mjög nákvæmur. Mjög auðveldur í meðhöndlun. Vélin snýst vel og hávaðinn er líka mjög áhugaverður. Ég hlakka til að fá þennan til að keyra í WRC“.
Núverandi keppnisbíll Neuville, i20 WRC, var einnig til staðar, ásamt RM19 prufubílnum, sem báðir eru sagðir hafa hvatt til þess að þróa nýjustu viðbótina við framleiðslu Hyundai.
Þrátt fyrir að i20 N jafni ekki 380 hö RM19 varðandi beint afl, er vörumerkið fullviss um að það muni vera „kappaksturshæfur“. Þrátt fyrir að Hyundai sé enn þá ekki búnir að staðfesta upplýsingar um aflið, er gert ráð fyrir að gerðin noti uppfærða útgáfu af 1,6 lítra turbó bensínmótor vörumerkisins sem gefur um 200 hestöfl.
Til viðbótar fær i20 N stífari fjöðrun, sportsæti og fjölda nýrra stillanlegra akstursstillinga.
Það er enn ekkert vitað hvenær við getum búist við að sjá i20 N opinberlega, þó að það sé stefnt að því að bíllinn bætist í hóp i30 N og nýs Kona N „crossover“ í sýningarsölum umboða snemma á næsta ári.
(byggt á frétt frá Hyundai og vef Autocar)
Umræður um þessa grein