Skömmu fyrir 100 ára afmælið var Audrey Matheson spurð hvernig hún vildi fagna tímamótunum. Jú, það var eitt sem hana langaði að gera og það var að fara í bíltúr á rauðri Corvettu. Og að bílnum væri ekið hratt!
„Ekki datt mér í hug að ég myndi lifa svona lengi. Ég er bara steinhissa á þessu,“ sagði hin 100 ára gamla kona, Audrey Matheson frá Phoenix í Arizona, í samtali við fréttamann ABC 15 í síðasta mánuði.
Audrey hefur upplifað og reynt eitt og annað frá 1922 til 2022. En hún átti alveg eftir að prófa að sitja í Corvettu. Það var því vel við hæfi að uppfylla ósk gömlu konunnar á aldarafmæli hennar og var Corvettuklúbbur í nágrenninu ekki lengi að bregðast við fyrirspurn þeirra sem skipulögðu afmælisveisluna.
Fjöldi fólks heimsótti Audrey á afmælisdaginn og voru uppákomurnar ýmsar. Beðið var með bíltúrinn þar til í lok veislunnar. Þá komu meðlimir The East Valley Corvettes club akandi á gljáfægðum köggum og var Audrey boðið upp í splunkunýja rauða C8 í eigu manns að nafni Jim Dunkelberger.
„Má bjóða þér í bíltúr,“ spurði Jim og jú, það mátti sannarlega!
Að bíltúr loknum sagði Jim að hin 100 ára Audrey Matheson hefði viljað fara hratt og það var greinilega gaman hjá þeim. Það sést glöggt í myndbandi frá ABC 15 og sjá má hér fyrir neðan.
Annað tengt aldursforsetum og bíladellu:
Stal sögufrægum bíl en skilaði honum
Fimmtíu og sjö ára ástarsamband
Fimm árum og 60 þúsund dollurum síðar
???Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein