10 ráð varðandi umhirðu bíla
- Hvert er leyndarmálið? Þrjú orð: viðhald, viðhald, viðhald.
- Reglubundin þjónusta skiptir máli
Þegar við kaupum nýjan bíl, fylgir honum nær undantekningarlaust notendahandbók, því miður hér á landi venjulega aðeins á ensku eða öðru tungumáli. Engar, eða litlar kröfur eru uppi um að þessar handbækur séu þýddar á íslensku. En það er líklega vegna þess að enginn, eða fáir lesa notendahandbókina. Þetta á alla vega við um þær niðurstöður sem þeir sem halda úti vefsíðum um bíla í löndunum í kring um okkur hafa komist að.
Reglubundnar þjónustuskoðanir umboða skipta máli
Nær öll bílaumboð setja upp kerfi þjónustuskoðana þegar keyptur er nýr bíll. Í flestum tilfellum eru þessar skoðanir settar þannig upp til að viðhalda ábyrgðarskilmálum viðkomandi bíls.
Sé þessum skoðunum ekki framfylgt rétt fellur ábyrgðin oft niður eða verður mun takmarkaðri.
En hvað á að gera?
Að hverju þarf að gæta ef við viljum halda bílnum eins góðum og við getum, óháð reglubundnum skoðunum á umboðsverkstæði?

„Það sem þarf að gæta helst að til að ná sem flestum kílómetrum út úr bílnum er að fylgjast með stöðu vökva, skipta um tímareim og fylgja viðhaldstilmælum framleiðanda,“ segir Jim Moritz, tæknikennari hjá alþjóðlegu bíla- og framleiðslufyrirtæki.
Viðhald; „trúarbrögð“ hjá sumum
Sumir bíleigendur fylgja hverju því sem bifreiðaframleiðandinn mælir með, fyrir þá eru það trúarbrögð. Í mörgum tilvikum eru þeir að skipta um vélarolíu, gírkassa og bremsuvökva oftar en krafist er. Þeir lesa handbókina frá forsíðu til enda, og fylgja öllum ráðum og fyrirmælum til fulls.
Aðrir bíleigendur hafa sitt lag á, fara ekki endilega í allar þjónustuskoðanir og trassa jafnvel að skipta um olíu og þjónusta bílinn reglulega.
Tíu góð ráð
Hér fyrir neðan eru tíu viðhaldsráð til að láta vél, gírkassa og aðra dýra hluta bifreiðarinnar endast lengur. Mikilvægast er samt að fara með bílinn reglulega í þjónustu á smurstöð til að forðast háan viðgerðarkostnað.
1.
Athugið olíuna: Einfaldasta leiðin til að auka endingu bíls, og þá aðallega vélarinnar, er að viðhalda réttu magni af olíu í vélinni. Að auki á að skipta um olíu og síu með því millibili sem mælt er með í handbók eigandans, til dæmis á 5.000, 7.500 eða 10.000 kílómetra fresti. Olían er mikilvæg, því hún smyr vélarhlutana. Í öðru lagi er olían vökvi sem dreifir hita. Flestar bílvélar brenna aðeins olíu um leið og hún smyr vélina þannig að það þarf að bæta það upp þegar olíuhæðin lækkar.
Gakktu úr skugga um að olían fyrir vélina sé rétt. Bílvél keyrir heitari með minni olíu í henni. Því heitari sem hún keyrir því meira álag er sett á vélarhlutana.
Þú gætir eyðilagt vélina að lokum, eða brætt úr henni, sem þýðir að það verður að taka hana upp eða skipta um hana, og það er mjög dýrt.

2.
Barist gegn eðju og botnfalli: Það er mikill ókostur við stuttar ferðir, umferð þegar stöðugt er varið að stoppa og taka af stað aftur, svo og langar ferðir þegar mikið álag er á vélina; til dæmis við að draga eftirvagn.
Óvinurinn: Eðja og botnfall. Eðjan er bensínafurð úr jarðolíu sem er klísturkennt, svartlitað efni sem getur hlaðist upp í bílvél. Hún getur átt stóran þátt í vandamálum vélarinnar. Að skipta um vélarolíu á tilskildum fresti eða oftar dregur úr líkum á uppsöfnun á eðju og lengir endingu vélarinnar. Sérstök akstursskilyrði geta valdið eðjumyndun. Hún getur komið frá olíu sem storknar í langri ökuferð þegar hitastig vélarinnar er yfirleitt um og yfir yfir 100°C gráður. Aðrir sökudólgar eru stuttar ferðir sem koma í veg fyrir að vélin nái réttum vinnuhita og vegna vatns í olíunni vegna þéttingar.
„Það safnast alls staðar í vélinni“. Eðjan fellur til botns í olíupönnu. En þegar vélin hitnar blandast olían við þetta „olíuþykkni“ og er dælt í gegnum alla vélina. Þetta olíuþykkni brennur ekki í burtu.
Fylgið notendahandbókinni varðandi skipti á olíu og síum til að koma í veg fyrir þessa uppsöfnun á eðju eða olíuþykkni eða skiptið yfir í tilbúna smurolíu, sem er ekki byggð á jarðolíu, nokkuð sem mjög margir bílar nota í dag. Við munum koma fljótlega með grein hér sem tekur á þessum mun og skilgreiningum á vélarolíu. Margir flotar nota tilbúna olíu.
3.
Skipt um tímareim: Vél bílsins er annað hvort með tímareim samsetta úr gúmmíefnum eða tímakeðju. Reimin tengir sveifarásinn við kambásinn, sem er samstilltur við opnun og lokun ventla vélarinnar. Ef bíllinn er með tímareim skaltu fylgja ráðleggingum framleiðanda (í handbókinni eða frá söluaðila) til að ákvarða hvenær skipt er um reimina.
Tímareimar úr gúmmíefnum harðna með tímanum og geta brotnað, og þegar þær gera það geta það verið endalok vélarinnar, og útkoman getur verið skelfileg, ventlar brotna, stimplar ganga upp í ventlana og allt er ónýtt. Til að koma í veg fyrir slíkar hörmungar ætti að skipta um tímareimar með því millibili sem framleiðandi mælir, venjulega milli 80.000 og 160.000 kílómetrar, oftar þó lægri talan. Kostnaðurinn við að skipta um tímareimn er ekki lítill en hann er þúsundum minni en færi í að taka vélina upp.

4.
Athugið vökva á vökvastýri: Eldri bifreiðar og nokkrar nýjar gerðir eru með stýrisdælu fyrir vökvastýrið, sem er smurt með vökva fyrir vökvastýri. Forðabúr dælunnar er með skrúfuðu loki sem hægt er að taka af, svo að hægt sé að athuga vökvahæðina. Ef dælan verður þurr getur hún skemmst eða eyðilagst og þá þarf að skipta um hana með tilheyrandi kostnaði.
Einkenni vandamála í vökvastýri eru t.d. hávaði þegar snúið er á stýrið, þungt stýri eða stíft stýri. Nýrri ökutæki eru með rafmagnsstýringu; þar eru engir vökvar.

5.
Skipt um sjálfskiptivökva: Að hafa rétt vökvamagn á sjálfskiptingu er mikilvægt vegna þess að það kælir gírkassann, smyr hreyfanlega hluti og „mýkir“ skiptingu á milli gíra. Hins vegar glatar vökvinn gæðunum með tímanum. Tíð stöðvun og akstur eða dráttur á eftirvagni styttir „líftíma“ sjálfskiptivökva. Við þessar aðstæður hækkar hitastig gírskiptingarinnar/sjálfskiptingar og setur álag á íhluti gírkassans og vökvann.
Bílaframleiðendur mæla með tíðari vökvaskiptum við þessar aðstæður. Skoðaðu eigendahandbók, eða leitaðu upplýsinga hjá söluaðila, varðandi frekari upplýsingar.
Merki um vandamál í sjálfskiptingu: Ef vökvinn verður dökkur eða ef af honum er brunalykt gæti það verið merki um að skipta þurfi um hann eða að sjálfskiptingin sé að þróa með sér vélræn vandamál.
Athugaðu vökvahæðina þegar vélin er í gangi. Til að forðast bilun í sjálfskiptingu skal aðeins nota vökvann sem bílaframleiðandinn mælir með. Dæmi eru um að menn hafi blandað saman ólíkum sjálfskiptivökvum og skiptingin hafi hrunið á viku!
6.
Skipt um kælivökva og þeim gamla skolað út: Kælivökvi inniheldur ryðvörn sem brotnar niður með tímanum. Ryð og tæring getur byggst upp og skaðað vélina, stíflað vatnslásinn og skemmt vatnsdæluna. Sumir bílaframleiðendur mæla með útskiptingu á kælivökva á 50.000 km fresti, aðrir nefna lengra tímabil.
Dæmi um ryðmyndun í kælivökva er rauðleit froða sem myndast í þrýstingsjöfnunargeymi vatnskassans, ef hann er til staðar.
7.
Hemlavökvi athugaður– skipt um hemlavökva: Þegar litið er á annað borð undir vélarlokið til að athuga vökva er það góður tími til að athuga hæð á hemlavökva. Settu bílinn á sléttan flöt og skrúfaðu síðan lokið af forðabúri hemlavökva. Hæð hemlavökva ætti að vera á milli lágmarks- og hámarksmerkja í vökvaforðabúrinu. Notaðu ráðlagðan vökva bifreiðaframleiðandans og bættu við það í rétta hæð. Að skipta um bremsuvökva mun ekki auka endingu hemlakerfisins en það gæti bjargað lífi þínu. Bremsuvökvi sogar til sín vatn með tímanum sem safnast hefur saman í hemlakerfinu sem dregur úr hemlunarkrafti.
Hemlakerfi er ekki fullkomlega lokað eins og við gætum haldið, þannig að rakaþétting gæti átt sér stað með því að kalt hitastig breytist í heitt.
Ef of mikið vatn er í hemlavökvanum, myndar það hita sem aftur getur látið hemlavökvann/vatnið sjóða í lögninni og aukið hemlunarvegalengd bílsins.
8.
Viðhald á millikassa: Þetta getur verið mjög dýr viðgerð þegar hlutirnir fara úrskeiðis. Skipta þarf um olíu í millikassa á aldrifsbílum og fjórhjóladrifnum ökutækjum með tilteknu millibili. Fylgdu ráðleggingunum framleiðandans.
9.
Víxlið dekkjunum: Dekk eru dýr, svo þú vilt að þau endist. Í eigendahandbók segir til um hvenær ætti að víxla dekkjunum og athuga samstillingu. Jafn mikilvægt er að viðhalda réttum loftþrýstingi til að komast fleiri kílómetra á hverju dekki. Oftast er límmiði við hurð ökumanns sem sýnir hjólbarðaþrýsting fyrir fram- og afturdekk.

10.
Hafið hreina loftsíu fyrir vélina: Óhrein loftsía getur dregið úr kílómetrum á hvern lítra eldsneytis, skaðað afköst vélarinnar og stuðlað að meiri losun útblástursefna frá vélinni.

Ekki þörf á viðhaldi
Það eru nokkrir íhlutir í bílum sem einu sinni þurftu reglulegt viðhald, en vegna tækniframfara er engin þörf á slíku lengur. Dæmi um slíkt eru kúluliðar og stýrisendar sem áður fyrr þurfti að smyrja reglulega; ný kerti geta enst í allt að 250.000 kílómetra og hér einu sinni þurftu rafgeymar bíla (sem núna eru alveg lokaðir) stöðugs eftirlits við á hæð rafvökva.
(byggt á hugmynd í Kelley Blue Book)
Umræður um þessa grein