10 mest seldu bílar sögunnar
Það hafa orðið miklar breytingar í bílaheiminum frá upphafi bílaaldar. Nokkrir bílar hafa skipst á að vera viðurkenndir sem „mest selda bifreið í heimi“ síðan Ford smíðaði sinn milljónasta Model T þann 10. desember 1915. Sjálfur Model T var áfram söluhæsti bíllinn þar til fjörutíu og fimm árum eftir að framleiðslunni lauk árið 1927.
Hinn 17. febrúar 1972 hélt Volkswagen því fram að Ford hefði verið skipt út fyrir Bjölluna sem söluhæsti bíllinn, þegar bíll númer 15.007.034 var framleiddur. Þrátt fyrir að það hafi verið staðfest síðar að Model T hafi verið framleiddur alls í 16,5 milljónum seldra bíla, þá stendur þetta áfram í ljósi þess að Bjallan náði 21 milljón.
Í júlí á þessu ári, 2019, rúlluðu síðustu eintökin af Bjöllunni frá Volkswagen af færibandinu í verksmiðjum VW í Puebla í Mexíkó eins og við höfum áður fjallað um hér á vefnum okkar, endir ferðalags bíls sem náði frá Þýskalandi nasista í gegnum hippatímabilið en náði ekki að fanga smekk neytenda á tímum „crossover“-bíla og jeppa.
Bjallan og Corolla
Bjallan var mest selda farartækið þar til seint á tíunda áratug síðustu aldar þegar Toyota Corolla náði henni framar. Hins vegar var þetta dæmi um nútímavinnubrögð við að beita vörumerki á ýmsum bifreiðum og geyma það í markaðslegum tilgangi jafnvel þegar bíllinn breytist.
Á meðan fyrsta Corollan árið 1966 var afturhjóladrifin og með 2286 mm hjólhaf, deila núverandi framhjóladrifsútgáfur 2600 mm hjólhafi og nota vélrænt óskyldan grunn.
Heildarhönnun Bjöllunnar, bæði fagurfræðilega og vélrænt, breyttist svo lítið á 65 ára framleiðsluskeiði hennar að mögulegt er að festa 1936 yfirbyggingu á undirvagn 2003 árgerðar eða öfugt.
Lada hefur lengst verið óbreytt
Upprunalega gerðin af Lada, framleidd af AvtoVAZ í Rússlandi, er sú bifreið sem nokkru sinni hefur verið markaðssett án mikilla hönnunarbreytinga í framleiðslusögu hennar, en yfir 20 milljónir eininga seldust á milli 1970 og fram á mitt ár 2012. Lada, stundum þekkt sem „klassíkin“ á Vesturlöndum, var upphaflega byggð á Fiat 124 frá 1960 en uppfærð vélrænt til að takast á við lélega vegi og harðbýlt umhverfi.
Milli 1970 og 1979 höfðu um 5 milljónir bíla verið framleiddar. Þeir gengu undir nöfnunum VAZ-2101 (1200 fólksbifreið), VAZ-2102 (1200 station), VAZ-2103 (ferhyrnd aðalljós, meira lagt í innréttingar en í 1200), VAZ-2106 (endurbætt 2103). Milli 1980 og 2012 voru framleiddar meira en 15 milljónir Lada-bíla og þeir voru merktir fyrir ýmsa útflutningsmarkaði eins og Riva (Bretland), Signet (Kanada) og Nova (Þýskaland).
Bíllinn var einnig smíðaður með leyfi í nokkrum löndum (framleiðslutölur eru óþekktar). Þrátt fyrir að ýmsar uppfærslur hafi verið gerðar á stuðara bílsins, stýrissúlum og innréttingu auk annarra smávægilegra vélrænna endurbóta allan framleiðslutíma hans, hélt grunnatriðið, Fiat 124, ávallt sinni afleiddu hönnun.
Bílar fólksins
Autoblog-vefurinn hefur tekið saman upplýsingar um söluhæstu bíla allra tíma, allt frá upphafi bílaaldar og fram á okkar daga. Sumir þessara bíla eru hvorki framandi né sjaldgæfir; sumir söluhæstu bílar allra tíma fá ekki hjarta neins bílaáhugafólks til að slá hraðar. Þessir bílar eru sumir hverjir bara venjulegir bílar, og algengir í umferðinni. það virðist vera einn á hverju horni.
Margir þessara bíla hafa verið í sölu árum og áratugum saman og engin merki um að salan verði minni. Þeir eru kannski ekki mest spennandi bílar allra tíma, en að öllum líkindum gætir þú átt einn af þeim eða þekkir einhvern sem á einn slíkan. En hér að neðan fer listinn frá Autoblog.
?
1. Toyota Corolla
Fyrsta Toyota Corolla rúllaði af færibandinu og inn í hjörtu okkar árið 1966. Árið 1974 var hún mest seldi bíll í heimi. Þegar Toyota tilkynnti að Corolla númer 40.000.000 væri að fara í hendur nýrra kaupenda, sögðu þeir að bílarnir væru að fljúga út úr umboðum svo hratt svo að bifreiðaframleiðandinn væri ekki viss hver það hefði verið né á hvaða stað númer 40.000.000 hefði verið seldur. Nú hefur fjöldinn aukist í meira en 44.100.000 bíla sem samkvæmt nýjustu tölum hafa verið seldar um allan heim.
2. F-series Ford
Fyrsti Ford F-150 var kynntur árið 1948 og var seldur sem Ford Bonus Built. Fyrstu gerðirnar voru hvorki stórar né sterklegar en gæði pallbílsins jukust stöðugt miðað við næstu kynslóðir. Ford F-150 hefur selt meira en 40 milljónir módela á síðustu sex áratugum, sem gerir Ford að óumdeildum konungi pallbílsins.
Ford F-Series er áfram mest selda bifreiðin í Ameríku. Eftirspurn eftir pallbílum sýnir engin merki þess að vera að hægja á sér. Og nú nýlega var tilkynnt að rafdrifin útgáfa væri á leiðinni.
3. Volkswagen Golf
Golf er mest selda gerð allra tíma frá Volkswagen. Hann kom fram á sjónarsviðið árið 1974 og síðan þá hefur þessi bíll selst í yfir 30 milljónum eintaka.
4. Volkswagen Bjalla
Allt frá draumi sem einræðisherra Þýskalands átti, til okkar tíma er Bjallan einn sá framleiðslubíll sögunnar sem á lengsta framleiðslusögu. Bjallan, sem var fyrst smíðuð árið 1938 að ósk Hitlers, fangaði hjörtu margra í menningarhreyfingu sjöunda áratugarins með lágu verði og sígildri hönnun. Um 23,5 milljónir eintaka af Bjöllunni hafa verið seld um allan heim. Síðast var hún framleidd í Mexíkó, en framleiðslunni var endanlega hætt í júlí á þessu ári (2019).
5. Lada
Lada Riva, einnig þekktur sem Lada Nova, AutoVAZ VAZ-2101, kom fyrst á sjónarsviðið í fyrrum Sovétríkjunum árið 1980. En beinin eru í raun miklu eldri. Þessi sígilda Lada er byggð á Fiat 124, sem á rætur að rekja allt aftur til ársins 1966. Milljónum þessara litlu fólksbíla hefur verið dælt út, og jafnvel þó að framleiðslan sé ekki lengur í Rússlandi, þá er enn verið að smíða bílinn í Egyptalandi (að því er við best vitum).
6. Honda Civic
Áður en Civic var hleypt af stokkunum 1972 íhugaði Honda að draga sig alveg út úr bílaframleiðslu. Civic var fyrsti stórsigur þeirra á bifreiðamarkaðnum og hélt Honda áfram í þeirri grein að búa til bíla. Gott að þeir héldu áfram að selja bíla, annars hefðu þeir misst af vel yfir 18 milljónum Civic sem seldar voru.
7. Ford Escort
Escort var kynntur á Ameríkumarkaði árið 1981 en hafði verið sterkur í Evrópu síðan 1968. Ford seldi 18 milljónir Escort-bíla um allan heim. Í dag er Kína eini staðurinn sem Ford selur gerð sem enn ber nafnið Escort.
8. Honda Accord
Eftir að hafa fylgt á eftir Honda Civic, kom Accord til sögunnar árið 1976. Honda hefur selt um 18 milljónir Accord-bíla síðan þá.
Þetta var fyrsti bíllinn sem japanski framleiðandinn framleiddi í Ameríku og hefur verið einn mest seldi bíll í Bandaríkjunum síðan 1989. Accord hefur fengið það orð á Bandaríkjamarkaði að vera öruggur og áreiðanlegur fjölskyldubíll.
9. Ford Model T
Þetta er bíllinn sem þarf nánast enga kynningu, en nokkur orð samt: Fyrsti hagkvæmi fjöldaframleiddi bíllinn fyrir meðalkaupandann í Bandaríkjunum var smíðaður árið 1908 í Detroit af Henry Ford. Þótt Ford Model T hafi ekki verið í framleiðslu í liðlega 90 ár hefur honum samt tekist að halda fast í titilinn „áttundi söluhæsti bíll allra tíma“.
Það tók 20 ár fyrir Ford að selja fleiri bíla af gerðinni Model T en flest vörumerki selja á einum áratug. Á þeim tíma framleiddi Ford 16,5 milljónir eintaka af Model T.
10. Volkswagen Passat
Volkswagen Passat hefur gengið í gegnum sjö kynslóðir – og næstum 16 milljónir bíla hafa selst – síðan bíllinn var frumsýndur árið 1973. Í Bandaríkjunum var hann þekktur sem Dasher og Quantum áður en hann fékk núverandi nafn.
Passat er gegnheill fjölskyldubíll, sem býður upp á lúxus á nokkuð viðráðanlegu verði. Það er það sem stuðlaði að því að hann hefur selst svona á undanförnum árum.
Umræður um þessa grein